Innlent

Telja sig oft vera einskis virði

Mikilvægt er að skóli og heimili séu meðvituð um óvenjulega hegðun barna.
Mikilvægt er að skóli og heimili séu meðvituð um óvenjulega hegðun barna.

Börn og unglingar sem eru í sjálfsvígshugleiðingum telja oft að þau séu einskis virði, segir Sólveig Jónsdóttir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði og taugasálfræði.

Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að leitað hefði verið með börn niður í níu ára aldur til Barna- og unglingageðdeildar vegna mats á sjálfsvígshættu.

Sólveig segir börn sem svo sé ástatt um vera haldin alvarlegu þunglyndi og hafi oft ýmsa fylgikvilla, svo sem kvíðavandamál og hegðunarvandamál. Þau upplifi vonleysi, eigi oft erfitt með að sofa og einbeitingarhæfni sé skert. Hún bætir við að mikilvægt sé að taka á þunglyndi hjá börnum, svo og öllum geðrænum einkennum sem allra fyrst.

„Það er mjög þýðingarmikið að foreldrar séu vakandi fyrir óvenjulegri hegðun barna sinna,“ segir hún. „Þá þarf að fylgjast vel með þessu í skólum og byggja upp félagsleg prógrömm sem draga úr hugsanlegri félagslegri einangrun barna sem eiga við vanda að stríða, svo sem einelti og afleiðingar þess. Það fer mjög illa með börn.

Það er mikilvægt að leitast við að styrkja sjálfsmat barna og í öðru lagi að meðhöndla undirliggjandi geðræn vandamál sem fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×