Innlent

Staða kvenna hér fjórða best

Ekkert land í heiminum getur státað af fullkomnu jafnrétti samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins.
Ekkert land í heiminum getur státað af fullkomnu jafnrétti samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins.

Ísland er í fjórða sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnrétti kynjanna eftir löndum. Öll fimm Norðurlöndin raða sér á topp tíu og er Svíþjóð efst á lista og því jafnrétti mest þar af öllum þeim 115 löndum sem könnunin náði til.

Svíþjóð fær 8,13 í einkunn á kvarðanum einn til tíu þar sem tíu er fullkomið jafnrétti. Í engu landi í heiminum er því um að ræða að fullkomnu jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Ísland fær 7,81 í einkunn.

Jafnrétti kynjanna er metið í fjórum flokkum: efnahagslegri þátttöku og möguleikum; menntun; heilbrigði og lífslíkum og að lokum pólitískri þátttöku.

Heilsu íslenskra kvenna virðist vera nokkuð ábótavant og er Ísland í 92. sæti á lista yfir heilbrigði og lífslíkur kvenna. Hins vegar eru íslenskar konur í fjórða sæti hvað varðar pólitíska þátttöku og munar þar mest um það hve lengi Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands.

Þá voru íslenskar konur í sautjánda sæti yfir efnahagslega þátttöku en innan þess flokks kom Ísland hvað verst út hvað varðar launajafnrétti eða fjölda kvenna í stjórnunarstöðum, þar sem við lentum rétt fyrir neðan miðjan lista.

Ísland lenti jafnframt í 49 sæti hvað varðar menntun og jafnrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×