Erlent

Óttast að Tamiflu geti valdið geðsýki

Birgðir inflúensulyfja sem keyptar hafa verið hingað til lands vegna hættu á heimsfaraldri, til að mynda fuglaflensu, eru nær einungis Tamiflu.
Birgðir inflúensulyfja sem keyptar hafa verið hingað til lands vegna hættu á heimsfaraldri, til að mynda fuglaflensu, eru nær einungis Tamiflu.

Tilkynnt hefur verið um alvarlegar geðrænar aukaverkanir hjá á annað hundrað börnum sem fengið hafa inflúensu-lyfið Tamiflu og eru þær hugsanlega afleiðingar af notkun þess. Tugþúsundir skammta af lyfinu hafa verið keyptir hingað til lands til að bregðast við heimsfaraldri inflúensu, til að mynda fugla-flensu.

„Þetta hefur komið til skoðunar áður, en engar tilkynningar hafa borist frá ábyrgum yfirvöldum enn um að þarna sé raunveruleg tenging," segir Haraldur Briem, sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu. Hann bætir við að samkvæmt síðustu upplýsingum sem hann hafi fengið hafi þessara hugsanlegu aukaverkana gætt í Japan. Þar í landi sé lyfið mikið notað handa börnum.

Hjá Landlæknisembættinu eru nú til 89 þúsund skammtar af Tamiflu, sem eiga að nægja þriðjungi þjóðarinnar ef heimsfaraldur breiðist út.

„Við höfum ekki einungis keypt Tamiflu, heldur einnig lyf sem heitir Relenza til þess að hafa ekki öll eggin í einni körfu," segir Haraldur. „Við erum að kaupa um fjögur þúsund skammta af því á þessu ári og væntanlega um sextán þúsund á því næsta. Vitaskuld á alltaf að skoða upplýsingar eins og þessar af fullri alvöru, en ég hef enga staðfestingu á því að Tamiflu valdi geðrænum truflunum hjá börnum. Þetta er eitthvað sem menn hafa tekið eftir en svo getur verið að það sé mikið um geðrænar truflanir almennt. Þá þarf að athuga hvort þetta sé einungis tengt lyfinu eða hvort þetta sé eitthvað sem hægt er að búast við að gerist."

Haraldur segir enn fremur að heilbrigðisyfirvöld muni fylgjast náið með þróun mála. Fullvíst sé að Tamiflu valdi ekki aukaverkunum af þessu tagi hjá fullorðnu fólki.

Framleiðandi lyfsins hefur í samráði við bandarísku lyfjastofnunina FDA sent tilkynningu til lækna í Bandaríkjunum þar sem greint er frá 120 tilvikum geðrænna aukaverkana hjá börnum sem fengið hafa Tamiflu, að því er fram kemur á vefsíðu Lyfjastofnunar. Þessar upplýsingar eru einnig til skoðunar hjá heilbrigðisyfirvöldum í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×