Viðskipti innlent

Miklar sveiflur á 365 og Teymi

Gengi hlutabréfa í Teymi og 365, sem mynduðu stærstan hluta af fjárfestingafélaginu Dagsbrún, er komið upp fyrir það verð sem var á bréfum félaganna þegar Dagsbrún var skipt upp í lok nóvember. Gengi á bréfum Teymis hefur hækkað um níu prósent frá skiptingunni en um sex prósent hjá 365, útgefanda Fréttablaðsins.

Heildarvirði Dagsbrúnar var ríflega 27,5 milljarðar við uppstokkunina en verðmæti Teymis og 365 er nú rúmlega tveimur milljörðum meira.

Miklar sveiflur hafa verið á gengi nýju félaganna, einkum 365. Í gær stóð gengi 365 í 4,87 krónum á hlut, sem er yfir fjörutíu prósenta hækkun frá lokum nóvember þegar gengið fór í lægsta gildi. Þá hafði félagið fallið um fjórðung frá uppskiptingu Dagsbrúnar. Þá hækkuðu bréf í Teymi um rúm sex prósent í gær og alls um átján prósent frá 30. nóvember þegar bréf Teymis botnuðu.

Nokkrar ástæður kunna að liggja að baki þessum viðsnúningi. Hvað 365 varðar voru gerðir kaupréttarsamningar við lykilstjórnendur á genginu 3,44 í byrjun desember. Auk þess keyptu Baugur Group, stærsti hluthafinn í 365, og Fons eignarhaldsfélag, annar stór eigandi, bréf um svipað leyti.

Félögin sjálf hafa keypt eigin bréf til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttarsamninga sem kann að hafa leitt til fyrrgreindra verðhækkana.

Samningur Ara Edwald, forstjóra 365, um kaup á 23,8 milljónum hluta á genginu 3,44 til næstu þriggja ára, hefur hækkað um 34 milljónir króna í virði.

Þá hefur verið greint frá því að þrettán lykilstjórnendur Teymis hafi fengið kauprétt að 175 milljónum hluta á genginu 4,45 til næstu þriggja ára.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, fær rétt til að kaupa áttatíu milljónir hluta á umræddu gengi og nemur heildarvirði samningsins 356 milljónum króna. Miðað við gengi gærdagsins hefur þessi samningur aukist um 44 milljónir króna að verðmæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×