Tónlist

Bræðralag blúsaranna

Skemmtileg blúskvöld eru nú haldin á Classic Rock á mánudagskvöldum.
fréttablaðið/vilhelm
Skemmtileg blúskvöld eru nú haldin á Classic Rock á mánudagskvöldum. fréttablaðið/vilhelm

Undanfarinn mánuð hafa verið í gangi blúskvöld á mánudagskvöldum á Classic Rock. Bubbi Morthens ætlar að blúsa þar á næsta ári auk þess sem blúsarar frá Bandaríkjunum og Kanada eru væntanlegir.

Að sögn Smára Jósepssonar, eins af aðstandendum blúskvöldanna, byrjaði boltinn að rúlla þegar blúsþátturinn Bölverkur hóf göngu sína á sunnudögum á útvarpsstöðinni X-FM. Ákváðu þá Smári og félagar að efna til blúskvölda þar sem hinar ýmsu blússveitir gætu troðið upp. „Við höfum reynt að finna tvær nýjar hljómsveitir í hvert sinn og erum með prógram sem getur rúllað í nokkra mánuði. Við erum að reyna að finna þessu farveg þar sem við getum verið með vikulegan dag með blústónleikum um klukkan fimm til sex fyrir alla aldurshópa," segir Smári.

Allir velkomnir
Smári Jósepsson lætur sig aldrei vanta á blúskvöldin. Hann hvetur alla sem hafa áhuga á blús til að mæta á staðinn.
Blús hefur ekki verið í hávegum hafður hér á landi að undanförnu og vilja Smári og félagar ráða bót á því. „Þetta er tónlist sem hefur kannski ekki verið í neinum stöðugum farvegi. Við höfum lagt mikið upp úr því að það séu allir velkomnir og við hvetjum alla til að taka þátt sem eru í blús- og blússkotnum hljómsveitum. Á fyrsta kvöldinu mætti til dæmis gaur sem sagðist spila á munnhörpu. Honum var kippt í gang og hann spilaði viku seinna. Það er svona bræðralag sem er í gangi þarna," segir hann. Ýmislegt framundan
Blúskvöldin hafa vakið mikla lukku og á áhorfendum vafalítið eftir að fjölga enn meir á næstunni.

Ýmislegt er framundan hjá blúsurunum á næsta ári. Bubbi Morthens ætlar að heiðra þá með nærveru sinni snemma á árinu auk þess sem bandaríski blúsarinn Joe Bonamassa mun troða upp í febrúar og Sean Pinchin frá Kanada í haust.

Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í blúskvöldunum, með spilamennsku eða öðru, geta haft samband með tölvupósti á bluesiceland@gmail.com eða kíkt á heimasíðuna Myspace.com/bluesiceland. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×