Tónlist

Önnur platan komin út: Kyrr­stæður heimur Kára Egils

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kári segist alltaf vera með nóg af hugmyndum þegar kemur að tónlistarsköpun.
Kári segist alltaf vera með nóg af hugmyndum þegar kemur að tónlistarsköpun. Vísir/Anton Brink

Ein bjartasta von Íslands í tónlistarheiminum Kári Egilsson gefur í dag út sína aðra plötu, plötuna My Static World. Hann segir að á plötunni sé að finna ögn nútímalegri hljóðheim en hann hafi áður verið þekktur fyrir.

„Platan hefur verið í vinnslu í frekar langan tíma, alveg frá því áður en fyrri platan mín kom út, þetta er að mörgu leyti kannski ekki ósvipað, það eru svipaðir straumar en að einhverju leyti örlítið nútímalegri hljóðheimur, blanda af nýju og því gamla,“ segir Kári í samtali við Vísi. Hlusta má á plötuna neðst í fréttinni.

Kári gaf í janúar út tónlistarmyndband við eitt laganna á plötunni. Horfa má á myndbandið hér fyrir neðan.

Uppáhalds lag sem hann hefur samið

Hann er staddur á landinu þessa dagana en heldur brátt aftur út til Boston í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám við Berklee tónlistarháskólann. Kári varð 23 ára fyrir viku en er fyrir löngu orðinn þekkt nafn í íslenska tónlistarheiminum. 

Hann gaf út sína fyrstu plötu Palm Trees In The Snow árið 2023 og vakti hún verðskuldaða athygli. Hann var til að mynda valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra enda þykir tónlist hans einstök og með eindæmum falleg.

Kári stundar nám í Boston og segir það mikla reynslu. Vísir/Anton Brink

„Ég virðist nokkuð heppinn með það að ég fæ alltaf nóg af hugmyndum,“ segir Kári hlæjandi þegar hann er spurður hvort aukin athygli hafi einhver áhrif á hann og tónlistarsköpunina. „En svo þarf auðvitað ákveðinn aga til að vinna úr þeim. Ég hef stundum lent í því að vera með ábyggilega hundruð eða þúsunda af verkum í símanum eða tölvunni sem svo þarf að vinna úr.“

Á nýrri plötu Kára er meðal annars að finna lögin Carry You Home og Midnight Sky. Síðarnefnda laginu fylgdi tónlistarmyndband sem teiknað var af Diddu Flygenring og vakti mikla athygli. Didda teiknar jafnframt umslag plötunnar. Kári hefur svo lýst því sjálfur á samfélagsmiðlum að Carry You Home sé líklega í uppáhaldi hjá honum af þeim lögum sem hann hefur samið sjálfur.

En hvers vegna er það lag í uppáhaldi?

„Mér finnst það bara flott!“ segir Kári hlæjandi og bætir því við að hann sé að grínast, þó þarna sé engu logið. „Þetta er góð spurning. Uppbyggingin, með laglínunni og textanum virkar svo vel saman og svo hefur útsetningin gert því góð skil. Það er dramatík í því,“ segir Kári. 

Hann bætir því við að lagið sé í anda lagasmíðar Billy Joel frá sjötta áratugnum. Hann mun í kvöld spila lagið frammi fyrir alþjóð í Vikunni hjá Gísla Marteini og segist hlakka til.

Kári segist sækja innblástur í eigin reynslu en bætir líka í og segir sögur í lögum sínum, sem túlka má á ýmsa vegu. Vísir/Anton

Hægt að túlka bókstaflega en líka á táknrænan hátt

Ellefu lög eru á plötunni og lög og textar eru öll eftir Kára og svo er hann með hljóðfærileika með sér og Albert Finnbogasyni upptökustjóra. Kári eys lofi yfir samstarfsfólk sitt. Talið berst þá að lagasmíðinni og innblæstrinum. Kári hefur meðal annars lýst því að Midnight Sky sé í raun saga af syni geimfara sem bíður eftir því að pabbi sinn komi aftur heim.

„Þarna er þessi saga af geimfaranum en svo er hægt að túlka hana bæði bókstaflega en líka á táknrænan hátt, að þarna sé um að ræða missi eða söknuð. Það sem ég geri er að draga eitthvað úr persónulegri reynslu en samt alveg með góðum skammti af skáldskapi líka,“ útskýrir Kári.

Rætt var við Kára fyrir fjórum árum síðan í Íslandi í dag.

Kári fer aftur til Boston á mánudag en segist langa til þess að fylgja plötunni eftir með útgáfutónleikum hér heima. Gaman væri að geta gert það í sumar en Kári er þegar byrjaður að semja næstu plötu, þriðju plötuna.

„Það er svo fyndið að um leið og maður gefur út plötuna þá hugsar maður um hana sem gamla. Ég held það sé frekar algengt, maður vinnur í þessu svo lengi og þetta verður hluti af manni,“ útskýrir Kári sem hættir aldrei að semja tónlist og segir það munu eiga hug sinn og hjarta næstu árin.

„Ég byrjaði að taka upp þriðju plötuna í janúar og reyni að vera duglegur í því að vinna í henni. Það verður skemmtileg tilbreyting, hún verður tekin upp live í stúdíói, sem hefur ekki verið venjan hjá mér. En það er í minnsta lagi ár í þá plötu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.