Messa Gunnars Þórðarsonar sem helguð er minningu Brynjólfs biskups Sveinssonar verður flutt í kvöld í Grafarvogskirkju undir stjórn Hákons Leifssonar. Verkið er nýkomið út á geisladisk.
Messan er samin á síðustu tveimur árum og var frumflutt í þremur sóknum á liðnu vori við góðar undirtektir áheyrenda. Þetta er annað stórverk Gunnars samið fyrir hljómsveit og kór og hafa verkin bæði verið frumflutt í sóknum Keflavíkur þar sem Gunnar ólst upp.
Einsöngvarar í messunni eru Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jóhann Friðgeir. Stórir kórar samsettir af kirkjukórum þriggja sókna koma að flutningnum auk barnakóra. Flutningurinn í kvöld hefst kl. 20 og stendur í rúma klukkustund.