„Ég fer út um miðjan janúar og ferðast um með hljómsveitinni Rock Star: Supernova í sex til sjö vikur,“ segir söngvarinn Magni Ásgeirsson.
Eins og greint var frá um miðjan október var Magna ásamt Toby, Dílönu og húshljómsveitinni víðfrægu ýtt út af borðinu vegna launamála en samningar hafa náðst að nýju.
„Ég er ekki að fara „meika“ það og hef ekkert sérstakt upp úr þessu. Ég er hins vegar viss um að hver einasti maður sem kann að glamra á kassagítar myndi ekki slá hendinni á móti svona tilboði,“ svarar Magni aðspurður hvort nú bíði hans ekki bara gull og grænir skógar útí hinum stóra heimi.
Hljómsveitin fer til allra stærstu borga í Norður-Ameríku, kemur við í Kanada og herlegheitiunum lýkur svo í Los Angeles þar sem þættirnir voru einmitt teknir upp og stjarna Magna reis sem hæst.
Söngvarinn hefur ferðast um landið með hljómsveit sinni Á móti Sól en hann segir þessar tónleikaferðir ekki samanburðahæfar.
„Þetta er svolítið öðruvísi en að troða upp í Hreðavatnsskála, bæði verður rútan mun flottari og svo erum við að spila á tónleikastöðum sem hýsa tugi þúsundir áhorfenda,“ segir Magni í gríni.
Rock Star:Supernova hefur ráðið til sín nýjan bassaleikara eftir að Jason Newsted slasaðist rétt áður en tónleikaferðin átti að hefjast.
Sá heitir Johnny Colt og spilaði áður með bandarísku rokkhljómsveitinni Black Crowes og að sögn Magna þykir hann víst ögn hressari en forveri hans Newsted sem löngum hefur haft orð á sér fyrir að vera hálfgerður fýlupúki.
Magni ætlar hins vegar ekki að kveðja landið þegjandi og hljóðlaust því Á móti Sól stendur fyrir stórdansleik á Broadway í kvöld. Söngkonan Dilana hyggst troða upp með sveitinni en Magni upplýsir að hljómsveitin sé farinn í óformlegt frí um óákveðin tíma.
„Hljómsveitir hætta ekki, þær taka sér bara smá pásu,“ segir Magni.
Tónlist