Innlent

Skildi hnífinn eftir standandi í sárinu

Sextán ára árásarmaður stakk kunningja sinn í bakið og skildi hnífinn eftir standandi úr bakinu á honum. Fórnarlambið kom sér sjálfur á slysadeild og hafði hann þá náð hnífnum úr sjálfur.
Sextán ára árásarmaður stakk kunningja sinn í bakið og skildi hnífinn eftir standandi úr bakinu á honum. Fórnarlambið kom sér sjálfur á slysadeild og hafði hann þá náð hnífnum úr sjálfur.

Sextán ára pilturinn sat ásamt 28 ára kunningja sínum í bifreið hins síðarnefnda við Skautasvellið í Laugardal um eittleytið í fyrrinótt, þegar þeim sinnaðist með þeim afleiðingum að pilturinn dró upp hníf og réðst á félaga sinn.

Pilturinn stakk manninn í bakið og skildi við hnífinn standandi úr sárinu. Því næst forðaði árásarmaðurinn sér út úr bifreiðinni hafði sig á brott á hlaupum.

Fórnarlambið ók þá sem leið lá á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, en tókst að ná hnífnum úr bakinu á sér á leiðinni á bráðamóttökuna. Þegar þangað var komið hafði maðurinn misst mikið blóð en var ekki í lífshættu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þar var gert að sári mannsins og var hann útskrifaður stuttu síðar.

Samkvæmt vakthafandi læknis á slysadeild Landspítalans var áverki mannsins ekki lífshættulegur. Stungusárið var ofarlega á bakinu við herðablað og töluvert djúpt en fjarri helstu líffærum og því var maðurinn ekki í bráðri lífshættu.

Fórnarlambið gat gefið lögreglu upplýsingar um dvalarstað árásarmannsins og var hann handtekinn í nágrenni við heimili sitt í austurhluta höfuðborgarinnar stuttu síðar. Veitti hann að sögn lögreglu enga mótspyrnu við handtökuna.

Pilturinn var færður í fangageymslur en ekki yfirheyrður fyrr en seinnipartinn í gær. Lögregla neitaði að gefa upp hvort pilturinn hefði verið í annarlegu ástandi þegar lögregla hafði uppi á honum.

Að sögn lögreglu hefur hvorugur mannanna komið við sögu lögreglu áður og þeir eru ekki skyldir. Málið er í rannsókn ofbeldis­brotadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Lögregla lítur málið alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×