Innlent

Litháar vilja þakka fyrir stuðninginn

Von er á hátt í tvöhundruð Litháum til Íslands nú um helgina, en þeir eru á leið hingað til lands til að votta Íslendingum þakklæti fyrir stuðninginn í sjálfstæðisbaráttu baltnesku landanna. Fimmtán ár eru nú liðin síðan Litháar fengu sjálfstæði og voru Íslendingar fyrstir til að stíga fram og lýsa yfir stuðningi við sjálfstæðisyfirlýsingu Litháen, Lettlands og Eistlands.

Gintautas Babravicius, fyrverandi þingmaður í Litháen á frumkvæðið að þessari ferð en með honum í för eru litháíska lúðrasveitin Timitras, rokksveitin fræga Lt United og tónlistartvíeykið Partyzanai ásamt ljósmyndasýningunni 24 tímar í Litháen.

Ólafur Ragnar Grímsson mun taka við 200.000 undirskriftum á Bessastöðum, á laugardaginn næstkomandi, þar sem Íslendingum er þakkaður stuðningurinn í sjálfstæðisbaráttunni. Borgarstjóri Vilníusar og borgarstjórinn í Reykjavík munu við sama tækifæri undirrita vinabæjarsáttmála milli Vilníusar og Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×