Innlent

Þjónustusamningur við Flugstoðir ohf undirritaður

Í dag var undirritaður þjónustusamningur milli samgönguráðuneytisins og opinbera hlutafélagsins Flugstoða sem tekur yfir flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu fyrsta janúar.

Fyrirtækið verður verulega undirmannað þegar það tekur til starfa á mánudag, vegna aðgerða Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Það var Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og Ólafur Sveinsson stjórnarformaður hins nýja félags, Flugstoða ohf, sem undirrituðu samninginn í dag. Enn hefur ekki tekist að manna allar stöður flugumferðastjóra hjá nýja félaginu og mun viðbúnaðaráætlun Flugmálastjórnar taka gildi 1. janúar ef staðan breytist ekki.

Áætlunin hefur verið kynnt alþjóðasamtökum flugmanna og flugumferðarstjóra og samráð haft við alþjóðaflugmálastofnunina. Þorgeir Pálsson forstjóri Flugstoða ohf segir félagið þó hafa á þriðja tug flugumferðarstjóra.

Í fréttum okkar í hádeginu var missagt að íslenska flugstjórnarsvæðið yrði stjórnlaust þann 1. janúar. Þorgeir leggur áherslu á að flugöryggi verði áfram tryggt eins og hingað til. Flugstoðir ætli sér að veita góða þjónustu og vera best í henni á norður-atlantshafinu.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir aðdraganda að tilurð Flugstoða hafa verið afar ánægjulegan þrátt fyrir aðgerðir flugumferðarstjóra, en hann tekur undir áhyggjur forstjóra nýja félagsins. Hann segist þó vona að takist að manna stöðurnar sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×