Innlent

Áfengissala tvöfaldast nú fyrir áramótin

Allmargir skála í freyðivíni og smyrja talfærin til að kveðja gamla árið. Salan hjá ÁTVR er rösklega tvöfalt meiri fyrir þessa síðustu helgi ársins en aðrar helgar. Flöskurnar eru þó ekki svo miklu fleiri - en vínið er betra. Og þar með dýrara.

Margir skála í höfugum drykkjum til að kveðja gamla árið og tugir þúsunda flaskna verða líklega seldar hjá ÁTVR í dag og á morgun. Þó er það ekki svo að miklu fleiri flöskur séu keyptar þessa dagana, heldur dýrari. Sum sé, færri flöskur en betri vín. Og það er engin kreppa í áfengissölu, það sem af er desember er tíu prósent meiri sala en í fyrra. En eins og á öðrum árstímum er uppistaðan í fljótandi fæðu um áramótin bjór og vín, sterkt áfengi er á undanhaldi. "Sterk vín sem voru uppundur helmingur af sölunni fyrir 30 árum eru orðin 2-3% af heildarsölu ÁTVR," segir Gissur Kristinsson vínsérfræðingur hjá ÁTVR, og svo drekkur þjóðin auðvitað gríðarlegt magn af freyðivíni til að fagna nýju ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×