Erlent

Jólahald um víða veröld

Á aðfangadegi jóla keppist hinn kristni hluti jarðarbúa við að undirbúa fæðingarhátíð frelsarans sem gengur í garð í kvöld. Sinn er hins vegar siðurinn í hverju landi.

Hvað er meira við hæfi en að hefja þessa yfirferð í Betlehem, á Vesturbakka Jórdanar, þar sem Jesús Kristur er sagður hafa fæðst fyrir rúmum tvö þúsund árum síðan. Þrátt fyrir ófriðinn sem geisað hefur á heimastjórnarsvæðunum að undanförnu var allt með kyrrum kjörum við fæðingarkirkjuna í morgun. Vegna ástandsins er ekki búist við mörgum pílagrímum þetta árið en kristnir Palestínumenn ætla ekki að láta sig vanta til jólamessunnar þar.

Þorri íbúa hins stríðshrjáða Íraks aðhyllist íslam en það þýðir þó ekki að jólunum sé ekki fagnað þar. Á meðal þeirra sem halda jólin hátíðleg eru breskir hermenn í hafnarborginni Basra. Þeir voru í óðaönn að skreyta jólatréð þegar fréttamenn AP-fréttastofunnar bar að garði í morgun. Árið 2006 hefur einkennst af miklum hörmungum í Írak og líklegast eru þessir menn glaðir yfir þeim áformum bresku ríkisstjórnarinnar að kalla verulegan hluta herliðs síns heim á nýárinu.

Færum okkur hinum megin á hnöttinn, í fyrstu jólaskrúðgöngu Brasilíu sem fram fór á Copabacana-ströndinni í Rio de Janeiro í gærkvöld. Borgarbúar áttu ekki í miklum vandræðum með að töfra fram þriggja kílómetra langa gleðigöngu enda ýmsu vanir úr kjötkveðjuhátíðunum margfrægu. Þeir ætla ekki að láta hér við sitja heldur er gert ráð fyrir annarri göngu á gamlárskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×