Erlent

Bretar vilja að jólatré séu gróðursett aftur

Jólaundirbúningur stendur nú sem hæst víða um heim en er með afar misjöfnu yfirbragði eftir heimshlutum, og eru áherslur mismunandi eftir löndum. Umhverfisverndarsinnar í Bretlandi hvetja nú Breta til að halda umhverfisvæn jól með því að endurvinna rusl og kaupa jólatré með rótum svo hægt sé að planta þeim aftur. Árlega kaupa bretar yfir sex milljón jólatré, en megninu er hent eftir notkun og eykur rusl um níu þúsund tonn. Umbúðapappír og gosdósir er stór hluti af aukaruslinu, en bretar henda 75 milljón flöskum um hátíðirnar. Í heildina skapast þrjár milljónir tonna af rusli við jólahald í Bretlandi.

Kristnir í Írak létu ofbeldi í höfuðborginni ekki trufla sig frá jólaundirbúningi í dag þrátt fyrir að ástand í öryggismálum sé með þeim hætti að þeir geti ekki haldið jólin eins og vanalega. Einungis fáir hættu sér í búðir í aðal verslunarhverfi Baghdad til að kaupa jólatré og gjafir. Kristnum var frjálst að halda jólin hátíðleg á meðan Saddam Hussein var við völd, en tala kristinna í Írak er áætluð ein milljón.

Í Afghanistan var kristnum bannað að halda jól hátíðleg á tímum Talibanastjórnarinnar, en nú sjást jólatré á götum höfuðborgarinnar Kabúl. Kristnir í landinu, sem flestir eru útlendingar, undirbúa nú hátíðarhöldin sem hefjast á jóladag. Búðareigendur fagna þessari þróun ákaflega, þar sem þeir sjá fram á hagnað af gjafavöru framleiddri í landinu, en áður var hagnaður af gjafavöru einungis í tengslum við brúðkaup.

Það er örlítið annað yfirbragð yfir verslun í New York, en þar flæðir allt yfir af gjafavöru fyrir jólin. Þrátt fyrir að margir séu farnir að kaupa jólagjafir á internetinu, laða kostatilboð verslana í stórborgum, síðustu dagana fyrir jól, ótrúlegan fjölda fólks í bæinn. Í dag voru margir seint á ferðinni, en könnun á vegum alþjóðlegra verslana leiddi í ljós að menn eru ótrúlega seint á ferðinni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×