Innlent

Ræddu harðvítugar deilur í Skálholti

Biskup Íslands gengur af fundi Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sést hér ganga af fundi Kirkjuráðs sem fram fór í Biskupsstofu.
Biskup Íslands gengur af fundi Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sést hér ganga af fundi Kirkjuráðs sem fram fór í Biskupsstofu. MYND/Hörður

Kirkjuráð Þjóðkirkjunnar segir uppsögn Hilmars Arnar Agnarssonar vera hluta af skipulagsbreytingum sem boðaðar hafa verið í Skálholti en ráðið hefur greitt rúmlega áttatíu prósent af launum organista í Skálholti um fimmtán ára skeið. Kirkjuráðið fjallaði í gær um breytingar sem stjórn Skálholts hefur boðað á skipulagi og starfsemi Skálholtsstaðar.

Í bókun ráðsins um málefni organistans eru breytingarnar útskýrðar og staðfest að organistanum hafi verið sagt upp störfum. Þá segir einnig að Kirkjuráð hafi skipað stjórn Skálholts, sem unnið hafi að því að hrinda stefnumótuninni í framkvæmd.

Eins og greint hefur verið frá í Fréttablaðinu hafa boðaðar breytingar fallið í grýttan jarðveg heimamanna og Félags organista. Hilmar Örn hefur stýrt kórum í sveitinni auk þess að vera organisti í Torfastaðakirkju, Haukadalskirkju og Bræðratungukirkju, auk Skálholtskirkju.

Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, segir grunninn að skipulagsbreytingunum hafa verið lagðan í janúar á fundi Kirkjuráðs, skólaráðs Skálholtsskóla og þeirra er starfa á staðnum. Uppsögn Hilmars Arnar tekur gildi 1. október en tekur aðeins til þess hluta organistastarfsins sem Kirkjuráð hefur kostað.

Hilmar Örn hefur þegar leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna málsins en hann hefur starfað sem dómorganisti frá því árið 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×