Erlent

Helstu iðnríki heims funda á morgun

Sankti Pétursborg
Sankti Pétursborg MYND/AP

Leiðtogar helstu iðnríkja heims hittast í Sankti Pétursborg á morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn í Rússlandi.

Það eru átta ríki sem tilheyra G-8 hópnum eða hópi helstu iðnríkja heims. Þar eiga sæti Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Kanada, Japan og nú síðast Rússland.

Það eru Rússar sem halda fundinn nú og stýra þeir þar með dagskránni. Orkumál og milliríkjaviðskipti eru helstu umræðuefni fundarins. Telja má hins vegar miklar líkur á því að umræður muni að einhverju leyti snúast um ástandið í Líbanon, Ísrael og á Gaza-svæðinu.

Lögreglan í Sánkti Pétursborg vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja öryggismál í borginni.

Bush Bandaríkjaforseti er nú kominn til Rússlands en hann var í opinberri heimsókn í Þýskalandi í gær. Þar lýsti hann yfir áhyggjum af hömlum og skorti á frelsi í Rússlandi og sagði að þetta væri mál sem hann myndi ræða við ráðamenn í Rússlandi í ferðinni þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×