Erlent

Juventus dæmt niður og svipt tveimur titlum

Cesare Ruperto, yfirdómari ítalska íþróttadómstólsins, stendur upp eftir að hafa kveðið upp dóminn á hóteli í Rómarborg.
Cesare Ruperto, yfirdómari ítalska íþróttadómstólsins, stendur upp eftir að hafa kveðið upp dóminn á hóteli í Rómarborg. MYND/AP

Ítalska stórliðið Juventus hefur verið dæmt niður í B-deildina þar í landi og verður svipt meistaratitlunum tveimur sem liðið vann í ár og í fyrra og missir þar með sitt sæti í Meistaradeild Evrópu.

Þá hafa lið Lazio og Fiorentina einnig verið dæmd niður um deild. Fjórða liðið sem lá undir grun í málinu, AC Milan, heldur sæti sínu í A-deildinni en 44 stig verða dregin af liðinu frá heildarstigafjölda liðsins á síðasta tímabili sem þýðir að það missir líka sæti sitt í Meistaradeildinni. Þá munu 15 stig verða dregin af liðinu í byrjun næsta tímabils.

Juventus mun þar að auki hefja leik í Bé-deildinni með 30 stig í mínus, sem þýðir að liðið fær ekki sín fyrstu stig í deildarkeppninni fyrr en eftir lágmark 10 sigurleiki. Tólf stig verða á sama hátt dregin af liði Fiorentina í Bé-deildinni á næsta tímabili og sjö stig dregin af Lazio. Ekki er vitað hvaða lið mun hampa ítalíutitlinum í stað Juve en að öllum líkindum mun það vera Inter Milan sem hafnaði í þriðja sæti á síðasta keppnistímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×