Skoðun

Beinvænt mataræði

Þann 20. október var Alþjóðabeinverndardagurinn haldinn hátíðlegur. Þema ársins í ár er „Fæða og næring". Um það bil ein af hverjum þremur konum yfir fimmtugt og einn af hverjum fimm körlum þjást af beinþynningu. Þar sem það liggur ljóst fyrir að bein okkar mótast hvað mest á því tímabili lífs okkar þegar við tökum út vöxt og þroska segir það sig sjálft að þær neysluvenjur sem við tileinkum okkur á unga aldri geta skipt sköpum um hvað síðar verður. Það er þó sjálfgefið að mataræði hefur áhrif á beinin á öllum aldursskeiðum. Almennt má segja að beinvænt mataræði sé fyrst og fremst tengt fjölbreyttu fæðuvali.

Og þeir næringarþættir sem helst ber að varast tengjast ónógri orkuneyslu (en það að vera mjög grannholda hefur neikvæð áhrif á beinþéttni) og útilokun fæðutegunda, ekki síst fæðutegunda sem eru auðugar í kalki en kalk er aðaluppistaða beinvefjar. Að sjálfsögðu skipta mörg önnur næringarefni miklu máli og sem dæmi má taka að þá hefur mikið að segja að fá í kroppinn nægt D-vítamín og prótein.

Kalk: Það er staðreynd að flestum reynist auðveldast að verða sér úti um nægilegt kalk með neyslu mjólkurvara og svo sannarlega eykur neysla mjólkurvara næringargildi fæðunnar á annan hátt enda er mjólk sprengfull af margs konar næringarefnum (vítamínum og steinefnum) sem og hágæðapróteinum. Á þetta er minnst því á stundum er því haldið fram að mjólk sé mjög óholl fæða og að neysla hennar leiði jafnvel til eyrnabólgu, virki sem morfín á taugakerfi barna og auki líkur á krabbameinum. Fullyrðingar sem þessar hafa ekkert með næringarlegar staðreyndir að gera. En neikvæður áróður gagnvart ýmsum mat og næringarefnum er þekkt eins og fjölmörg dæmi sanna. Eða hver kannast ekki við hræðsluáróðurinn gagnvart gervisætuefninu aspartame sem eitilharðir andstæðingar efnisins segja eiturefni hið mesta og að neysla þess auki á tíðni krabbameina og leiði jafnvel til blindu.

Fullyrðingar sem þessar hafa verið hraktar aftur og aftur og sem dæmi má nefna að þá hefur vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli (SCF) Opinion of the SCF: Update on Safety of Aspartame farið rækilega yfir þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á aspartame með það að leiðarljósi að rannsaka öryggi þess. Og hefur vísindanefndin ítrekað bent á að engar sannanir séu fyrir því að neysla þess sé skaðleg heilsu fólks. Það að halda hræðslu­áróðri að fólki þar sem jafnvel heilu fæðuflokkarnir eru sagðir skaðlegir heilsu manna eða einstök fæðuefni er að sjálfsögðu mjög varhugavert þar sem það getur dregið verulega úr fjölbreytileika í fæðuvali og það ýtt undir næringarefnaskort af einhverju tagi. Aukið val er af hinu góða og svo dæmi sé tekið þjást sumir af offitu og hafa áhuga á að létta sig. Þeir sömu ákveða því að leita í orkuminni afurðir innan hvers fæðuhóps frekar en orkumeiri eins og t.d. kalk- og próteinríkt skyr með gervisætuefnum og þá án viðbætts sykurs.

D-vítamín: Mikilvægi nægs D-vítamíns í líkama til verndar gegn beinþynningu er alltaf að koma betur og betur í ljós. Þar sem fæða er almennt fátæk í D-vítamíni getur mörgum reynst nauðsynlegt að neyta D-vítamíns svo sem í formi fæðubótar eins og lýsis, sérstaklega ef fólk fer sjaldan út undir bert loft. Ástæða þess er sú að með aðstoð sólarljóss nær líkaminn að framleiða D-vítamín og nægir fólki með ljóst hörund innan við 30 mínútur af sólarljósi á dag til að fullnægja þörfinni. En engu að síður gefa vísindaniðurstöður til kynna að skortur á D-vítamíni sé mjög mikill á heimsvísu og það jafnvel á mjög sólríkum svæðum. Upplýsingar um ráðlagða dagskammta og magns kalks og D-vítamíns í fæðu er m.a. hægt að nálgast á heimasíðu Beinverndar (beinvernd.is).

Beinþynning er afar sársaukafullur sjúkdómur. Áhættuþættir beinþynningar eru margir og þá helstu náum við ekki að stjórna enda tengjast þær erfðum og hækkandi lífaldri. En ýmsa beinvæna lífsþætti getum við lært að tileinka okkur og náð þannig að byggja upp beinin eins vel og viðhaldið beinstyrk eins lengi og okkur er frekast kostur. Í því samhengi skiptir beinvænt mataræði miklu máli.

Höfundur er næringarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×