Erlent

Dýrasti hamborgari í heimi

Venjulegur hamborgari sem kostar sennilega um 400 íslenskar krónur.
Venjulegur hamborgari sem kostar sennilega um 400 íslenskar krónur. MYND/Vísir

Hótel eitt í Indónesíu hefur tekið upp á því að bjóða upp á hamborgara á matseðli sínum og vilja þeir með því reyna að sameina vestrænar og asískar matarhefðir. Það merkilegasta við hamborgarann er samt verðið en hamborgarinn kostar ekki nema 7.990 íslenskar krónur.

Hamborgarinn er 200 grömm og kjötið er besta japanska nautakjöt sem völ er á en það kemur úr Kobe nautum. Majónesið er síðan gert úr wasabi, sem sushi-unnendur vita hvað er, og ítalskir portobello sveppir eru síðan lagðir ofan á. Meðlætið er asísk pera og frönsk andalifur sem og skammtur af frönskum kartöflum. Herlegheitunum er síðan skolað niður með vínglasi.

Kjötið sem notað er kemur af Kobe nautum en þau eru nudduð daglega til þess að mýkja kjötið. Á meðan verið er að fita þau fyrir slátrun er þeim síðan gefið Sake, sem er japanskt hrísgrjónabrennivín, og bjór til þess að gera þau skapbetri og kjötið þar með betra.

Þeim sem líst ekki á þennan hamborgara skulu þó ekki örvænta því hægt er að fá venjulegan hamborgara á skyndibitastöðum í Indónesíu fyrir sama verð og venjulega, eða um 150 íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×