Viðskipti erlent

Fyrrum forstjóri WorldCom í fangelsi

Bernard Ebbers.
Bernard Ebbers. Mynd/AFP

Bernard Ebbers, fyrrum forstjóri bandaríska fjarskiptafélagsins WorldCom, fer í fangelsi í dag til að fullnusta dómi sem hann hlaut í fyrra. Hann var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir fjársvik, bókhalds- og skjalafals í mars á síðasta ári þegar hann gegndi stöðu forstjóra fyrirtækisins. Svikin eru talin nema 11 milljörðum bandaríkjadala eða 173 milljörðum íslenskra króna en þau leiddu til gjaldþrots fyrirtækisins árið 2002.

Ebbers hefur margsinnis áfrýjað dóminum en áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum staðfesti fyrri dóm í júlí síðastliðnum.

Ekki hefur verið gefið uppi hvar fangelsið er, sem Ebbers dvelur í við afplánun dómsins.

Í dómsniðurstöðu í máli Ebbers segir, að hann hafi átt beina aðild að því að falsa afkomutölur fyrirtækisins til að hækka gengi hlutabréfa í því. Fyrirtækið var lýst gjaldþrota árið 2002 og var eitt stærsta mál sinnar tegundar í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×