Innlent

Gæti hagnast um 20 milljarða við sölu á Icelandair

MYND/Teitur

Eignarhaldsfélagið FL Group gæti hagnast um tuttugu milljarða króna með fyrirhugaðri sölu á Icelandair, eða Flugleiðum, að mati markaðssérfræðinga. Það yrði einhver mesti söluhagnaður á svo skömmum tíma sem um getur hér á landi.

Icelandair mun vera skráð á átta og hálfan milljarð króna í efnahagsreikningi FL Group en fyrir nokkrum dögum var félagið metið á 26 milljarða og jafnvel upp í 32 milljarða eftir því hvernig staðið yrði að kaupunum.

Bankar, og þá einkum Landsbankinn eða KB banki, eru taldir líklegustu kaupendurnir fyrir kjölfestufjárfesta sem síðar kæmu til sögunnar sem kaupendur. Morgunblaðið nefnir til sögunnar fjárfestingahópa undir forystu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, annars vegar og hins vegar undir stjórn Finns Ingólfssonar, fyrrverandi forstjóra VÍS, og Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki, en Kaupfélag Skagfirðinga er orðið fjárhagslegt stórveldi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu NFS sýnir markaðurinn áhuga á kaupunum en ekki öfugt og því eru það ekki taldar vísbendingar um væntanlega kaupendur að FL Group á stóran hlut í Glitni og Landsbankinn á talsverðan hlut í FL Group og að Finnur Ingólfsson sé stjórnarmaður í KB banka. Hins vegar mun Landsbankinn hafa aðstoðað Hannes Smárason við kaupin á Flugleiðum sem leiddu til stofnunar FL Group.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×