Innlent

Sýknaður af hvolpadrápi

Maður á sextugs aldri hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa grýtt hvolpi í vegg með þeim afleiðingum að hvolpurinn hálsbrotnaði og drapst. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands vestra fyrir helgi.

Maðurinn var ákærður fyrir eignarspjöll og brot gegn dýraverndunarlögum með því að hafa með ofbeldisfullum og ómannúðlegum hætti drepið hvolp af chiuhaha tegund í eigu stúlku sem búsett er hjá móður sinni á Suðárkróki. Í dómi segir að maðurinn hafi verið félagi móðurinnar um nokkurt skeið en þau hafi bæði verið í mikilli óreglu. Stúlkan mun hafa keypt hvolpinn fyrir peninga sem hún fékk í fermingargjöf fyrir tveimur árum.

Til deilna mun hafa komið um miðja nótt milli ákærða og móður stúlkunnar, sem bar að maðurinn hefði þrifið hvolpinn úr fangi sér og grítt honum í vegg. Farið var með hundinn til dýralæknis morguninn eftir og bar sá að hringt hefði verið í sig útaf hundinum sem var sagður hafa meitt sig. Var hann svo skilin eftir við dyr dýralæknis og engan mann að sjá.

Ákærði þverneitaði að hafa skaðað hundinn. Slys hafi orðið þar sem hundurinn hafi orðið undir fótum fólks þegar verið var að vísa gestkomandi manni út. Hann gat þó ekki lýst því nánar.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ákærði hafi staðfastlega neitað sök og lýst atburðunm nokkurn veginn á sama hátt fyrir lögreglu og dómi. Atburðalýsing konunnar fái ekki stoð í framburði annarra vitna og hún því ein um að lýsa atburðum með áðurnefndum hætti. Taldist því ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi drepið hvolpinn. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×