Innlent

Fjörtíu prósent starfsmanna af erlendu bergi brotin

Áttatíu prósent þeirra sem starfa við fiskvinnslu í Reykjavík eru af erlendu bergi brotnir.
Áttatíu prósent þeirra sem starfa við fiskvinnslu í Reykjavík eru af erlendu bergi brotnir. MYND/Gunnar

Fjörtíu prósent þeirra sem starfa við fiskvinnslu hér á landi eru af erlendu bergi brotnir. Hæst er hlutfallið í Reykjavík þar sem áttatíu prósent starfsmanna fæddust annars staðar en á Íslandi.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, gerði erlent vinnuafl í fiskvinnslu að umtalsefni í ræðu sinni á þingi Sjómannasambands Íslands í síðustu viku. Hann sagði sjávarútveg njóta góðs af starfskröftum útlendinga. Stórauka þyrfti hins vegar íslenskukennslu fyrir þennan hóp og er hann sannfærður um að starfstengd íslenskukennsla fyrir erlent fiskvinnslufólk verði til bóta fyrir fiskvinnslu í landinu og byggðarlögin í heild sinni.

Erlendu starfsfólki sem starfar í fiskvinnslu hér á landi hefur fjölgað á síðustu árum. Í úttekt sem fréttastofan gerði hjá tuttugu og þremur stærstu fiskvinnslufyrirtækjum landsins kemur í ljós að fjörtíu og eitt prósent þeirra sem starfa við fiskvinnslu í landi eru af erlendu bergi brotnir. Hluti þeirra hefur fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa verið búsettur hér um árabil.

Þvert á það sem margir telja þá er hlutfallið ekki hæst úti á landi heldur í höfuðborginni sjálfri þar sem það er 80%. Hjá Toppfiski í Reykjavík eru 90% starfsmanna í fiskvinnslu af erlendu bergi brotnir og í vinnslu HB-Granda í Reykjavík er hlutfallið 74%. Næst hæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem það er tæplega 60%

Lægst er það á Suðurlandi en þar er það 18% og sú fiskvinnsla sem hefur lægst hlutfall erlendra starfsmanna er fiskvinnsla HB Granda á Vopnafirði en þar er hlutfallið 2%.

Stjórnendur fyrirtækjanna segjast finna mikinn mun á síðustu árum. Hjá fiskvinnslu einni á Norðurlandi voru erlendir starfsmenn tveir fyrir tveimur árum en eru nú 45.

Breyting hefur ekki aðeins verið í fiskvinnslu í landi. Hjá útgerðarfyrirtækjum fengust þær upplýsingar að erlendu starfsfólki á skipunum hafi einnig fjölgað og hefur aukningin á sumum stöðum verið allt að 50%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×