Erlent

Íranir lofa Írökum aðstoð

Talabani (t.h.) og Ahmadinejad (t.v.) ræðast við í dag.
Talabani (t.h.) og Ahmadinejad (t.v.) ræðast við í dag. MYND/AP

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, tók í dag á móti Jalal Talabani, forseta Íraks, og hófu þeir viðræðu um ástandið í Írak og hvernig Íran gæti komið að því að bæta ástandið þar. Ahmadinejad sagði fyrir fundinn að hann myndi gera allt í sínu valdi til þess að bæta ástandið í Írak en löndin áttu í átta ára löngu stríði á níunda áratug síðustu aldar.

Fréttaskýrendur hafa leitt líkur að því að Íranir séu að reyna að telja Írökum trú um að Bandaríkjamenn þurfi að vera þar um ókomna tíð til þess að halda þeim uppteknum og koma þannig í veg fyrir hugsanlega árás á Íran og kjarnorkuver þess. Aðrir hafa hinsvegar bent á að kannski sé Ahmadinejad einfaldlega með áhyggjur af því að óöldin sem nú ríkir í Írak eigi eftir að breiðast út til Írans.

Mikið er nú að gerast í málum í Mið-Austurlöndum en Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, var nýlega í Sádi Arabíu og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er á leið til Jórdaníu. Einnig hefur komist skrið á viðræður milli Ísraela og Palestínumanna undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×