Erlent

Aukin spenna við landamærin

Stríðsminjar. Suður-kóreskir hermenn ganga fram hjá eftirlíkingum af kjarnorkusprengjum við stríðsminjasafn í Seúl. Búist er við að Norður-Kóreumenn sprengi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í dag eða á næstu dögum.
Stríðsminjar. Suður-kóreskir hermenn ganga fram hjá eftirlíkingum af kjarnorkusprengjum við stríðsminjasafn í Seúl. Búist er við að Norður-Kóreumenn sprengi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í dag eða á næstu dögum.

Suðurkóreski herinn skaut fjörutíu viðvörunarskotum að hermönnum í Norður-Kóreu sem fóru yfir landamæri sem skilja ríkin að í gærmorgun. Búist er við að Norður-Kóreumenn sprengi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni á allra næstu dögum, jafnvel í dag. Spenna á svæðinu hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem nær dregur kjarnorkutilraununum.

Ekki er ljóst hvers vegna hermennirnir norður-kóresku héldu yfir landamærin í gær en þeir hörfuðu þegar viðvörunarskotunum var skotið að þeim. Þeir voru þá komnir þrjátíu metra inn fyrir vopnahléslínuna sem skilur löndin tvö að. Enginn þeirra slasaðist. Þetta er í annað skipti sem atvik á borð við þetta gerist á þessu ári.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hvatti Norður-Kóreumenn á föstudag til þess að hætta við fyrirætlanir sínar um smíði kjarnorkusprengju og hótaði alvarlegum afleiðingum ef þjóðin brygðist ekki við tilmælunum.

Nágrannaþjóðir Norður-Kóreu hafa fagnað yfirlýsingu Öryggisráðsins. Sumar þjóðir hafa varað við því að kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna muni jafnvel koma af stað vopnakapphlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×