Innlent

Grbavica verðlaunuð á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni

Grbavica hlaut í gærkvöldi aðalverðalaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar. Myndin er eftir Jasmila Zbanic. Grbavica heitir eftir samnefndu hverfi í Bosníu. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að myndin sé raunsæ og áhrifamikil en hún tekur á erfiðleikum eftirstríðsáranna í Bosníu.

Samtök kvikmyndagagnrýnenda og blaðamanna um heim allan, FIPRESCI, veittu ensku kvikmyndinni Red Road eftir Andrea Arnold sín verðlaun.

Áhorfendaverðlaunin fékk danska kvikmyndin Drömmen eftir leikstjórann Niels Arden Oplev. Myndin hefur verið mjög vinsæl í Danmörku.

Ásgeir Runólfsson, framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands, veitti mexíkósku kvikmyndinni De NADIE sérstök mannréttindaverðlaun. Myndin er eftir Tin Dirdamal en í henni segir frá því sem innflytjendur frá Suður- og Mið-Ameríku þurfa að ganga í gegnum á leið sinni til Bandaríkjanna.

Að lokum veitti biskup Íslands kvikmyndinni Vier minuten verðlaun fyrir hönd Þjóðkirkjunnar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×