Viðskipti erlent

Handtekinn fyrir innherjasvik

Yoshiaki Murakami.
Yoshiaki Murakami. Mynd/AFP
Lögregluyfirvöld í Japan handtóku í dag Yoshiaki Murakami, einn helsta fjármálamann landsins, og ákært vegna vafasamra verðbréfaviðskipta. Murakami hefur viðurkennt að hafa keypt bréf í japanska fyrirtækinu Nippon Broadcasting System á síðasta ári eftir að hann fékk vitneskju um að japanska netfyrirtækið Livedoor hygðist kaupa hlut í fyrirtækinu.

Nippon Broadcasting System er útvarpsstöð í Japan og hækkuðu bréf fyrirtækisins hratt þegar fyrirtækin Livedoor og Fuji Television kepptust um hluti í fyrirtækinu.

Murakami seldi bréf sín í Nippon Broadcasting System til Livedoor þegar kaupin voru afstaðin.

Þetta er enn eitt fjármálahneykslið tengt Livedoor. Fyrr á þessu ári þurfti að loka fyrir viðskipti með hlutabréf í kauphöllinni í Tókýó í 20 mínútur vegna mikils álags á tölvukerfi kauphallarinnar þegar fjöldi fjárfesta seldi bréf sín í fyrirtækinu eftir að upp komst að lögregluyfirvöld hefðu Livedoor til rannsóknar. Fjórir stjórnendur fyrirtækisins fölsuðu afkomutölur Livedoor árið 2004 og létu sem það hefði skilað hagnaði í staðinn fyrir tap. Voru þeir handteknir nokkru síðar. Umskipti hafa orðið á stjórn félagsins, sem var afskráð úr kauphöllinni í mars.

Murakami á yfir höfði sér þriggja ára fangelsi verði hann dæmdur sekur fyrir innherjasvik og greiðslu sektar upp á rúmar 1,9 milljónir íslenskra króna. Þá getur svo farið að fjárfestingafyrirtæki hans, MAC Asset Management, verði dæmt til að greiða allt að 190 milljónir króna í sektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×