Innlent

Ýjar að því að Fons kaupi aftur Sterling

Berlingske Tidende í Danmörku lætur að því liggja að eignarhaldsfélagið Fons, sem í fyrra keypti dönsku flugfélögin Mersk og Sterling og seldi þau sameinuð til FL Group, muni aftur eignast Sterling á næstunni.

Þetta kemur fram á vefsíðu Berlingske undir stikkorðunum að peningar Sterling eigendanna streymi út í buskann. Sagt er að markaðsvirði FL Group hafi fallið um helming frá því í febrúar og að gengi í félögum, sem FL Group hafi fjárfest í, hafi líka lækkað. Þá veki það athygli í allri umræðunni um útrás íslenskra fjárfesta um allan heim að helstu eigendurnir á bak við hana séu Íslendingar sjálfir sem bendi til þess að þeir njóti ekki tiltrúar erlendra fjárfesta.

Um FL Group segir að um 80 prósent hlutafjár sé á hendi um það bil tíu manna og Hannes Smárason stjórnarformaður sé nánast einráður með 18,3 prósent ásamt leikfélaga sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem eigi hátt í það jafn stóran hlut í FL Group. Fons sé einnig stór hluthafi. Hvorki náðist í Hannes Smárason né Pálma Haraldsson í Fons.

Eins og áður sagði birtist þessi grein í Berlinske, en íslenska fyrirtækið Dagsbrún er nú að leggja í harða samkeppni við Berlinske á danska fríblaðamarkaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×