Innlent

Hertar öryggisreglur í Leifsstöð

MYND/Vísir

Öryggisreglur hafa verið hertar til muna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Íslendingar sem hyggjast ferðast erlendis eru vafalítið óöruggir um hvað þeir mega og eiga að gera.

Öryggisreglur hafa verið hertar til muna á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Farþegar í öll flug, ekki bara til Bandaríkjanna og Bretlands, þurfa að fylgja þessum nýju reglum frá og með morgundeginum.

Ekki er leyfilegt að hafa með sér neinn vökva í handfarangri, vatn, gosdrykki, jógúrt, áfengi eða snyrtivörur í fljótandi formi. Öllu þess háttar ætti þess vegna að pakka í ferðatöskur, jafnvel varaglossinu og ilmvatninu. Undanskilin eru nauðsynleg lyf að hámarki 240 ml og mjólk og matur fyrir ungabörn. Farþegum er þó heimilt að kaupa sér drykki í flugstöðinni og hafa þá með sér inn í flugvélina, líklega þarf þó að stilla sig um að rífa innsiglið af flöskunum þar til komið er um borð. Farþegar í Bandaríkjaflugi fá þó ekki keypta drykki afhenta fyrr en við brottfararhliðið.

Allir farþegar þurfa að fara úr skónum við vopnaleitina og verða þeir gegnumlýstir. Vert er að hafa í huga að ef flókið er að komast úr skónum flýtir það verulega fyrir ef fólk fer úr þeim í röðinni áður en komið er að þeim. Við málmleitarhliðið þarf einnig að taka fartölvur og önnur rafmagnstæki úr handfarangri og setja í þar til gerða bakka áður en allt saman er gegnumlýst. Einnig þarf að taka af sér belti með málmsylgjum og fjarlægja aðra málmhluti úr vösunum áður en farið er í gegnum hliðið.

Vegna aukins eftirlits í Leifsstöð mælast yfirvöld á vellinum til þess að fólk mæti í síðasta lagi tveimur tímum fyrir áætlaða brottför. Farþegar ættu að búast við röðum við málmleitarhlið og ætla sér nógan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×