Innlent

Rannsaka lifnaðarhætti hvala

Vísindamenn á bátnum Söngur hvalsins eða "Song of the Whale" hafa lokið rannsóknum sínum á hvölum við strendur Íslands. Við tekur úrvinnsla gagna en í stað þess að veiða hvali í vísindaskyni skoða þeir lifnaðarhætti þeirra í sjónum, hljóðrita söng þeirra og mynda þá með neðansjávarmyndavélum.

Vísindamennirnir eru hér á vegum Alþjóða dýraverndunarsjóðsins sem eru alþjóðlegur sjóður sem vinnur að aukinni velferð villtra og taminna dýra um allan heim. Sjóðurinn hefur um nokkra áratuga skeið barist fyrir verndun sjávarspendýra og er vísindaleg þekking þeirra viðurkennd um allan heim. Með rannsóknum sínum vill sjóðurinn reyna að auka skilning manna á sjávarspendýrum. Vísindahópurinn hefur á þessum tveimur mánuðum sem rannsóknir hans hafa staðið yfir hér á Íslandi safnað saman gögnum á ýmsan hátt.

Þegar úrvinnslu gagna er lokið munu niðurstöðurnar verða sendar til Hafrannsóknarstofnunar Íslands en auk þess hefur hópurinn hýst nema um borð í bátnum sem hafa fengið að vinna við hlið hans og öðlast þannig reynslu við rannsóknir á hvölum á hafi úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×