Viðskipti innlent

Síminn fyrstur á Íslandi með WiMAX tækni

Síminn býður viðskiptavinum sínum aðgang að samskiptaneti sem nýtir WiMAX tækni. Um er að ræða þráðlaust net sem hentar vel fyrir bandbreiðar Internetteningar. Nú þegar er þessi þjónustu í tilraunarekstri fyrir sumarhúsasvæði í Grímsnesi. Í tilkynningu segir að Síminn sé fyrst fyrirtækja á Íslandi til að bjóða upp á þessa tækni.

WiMAX tæknin er langdrægt kerfi sem hentar vel þar sem hvorki er ljósleiðara- né ADSL-samband en með henni er hægt að veita notendum við bestu aðstæður mikinn tengihraða og afkastamikla sítengingu við Netið.

Þá hentar WiMAX tæknin vel til gagnaflutninga og auk Internetsins er hægt að tengjast innri netum fyrirtækja með þessari tækni.

Í tilkynningunni segir ennfremur að nettenging sem þessi bæti lífsgæði til muna í hinum dreifðu byggðum landsins og auðveldar fólki að stunda fjarvinnu og fjarnám, eða njóta afþreyingar og fróðleiks á Internetinu.

Síminn hefur staðið fyrir tilraunum með WiMAX net bæði í Grímsnesinu og einnig í Þingeyjarsveit. Tilraunirnar hafa gengið það vel að í næsta mánuði munu þessar öflugu nettengingar standa viðskiptavinum Símans í Grímsnesinu til boða.

 

Unnt er að nýta þessa nýju tækni fyrir talsíma og í Bandaríkjunum hefur það verið gert fyrir farsímasamtöl. Kerfið býður upp á þann möguleika að taka frá ákveðna bandbreidd fyrir símtöl þannig að netumferð og niðurhal gagna hafi ekki áhrif á gæði símtalanna, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×