Erlent

Nektardans er list

Norskur áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að nektardans sé listgrein og því eigi nektardansstaðir að vera undanþegnir virðisaukaskatti.

Gamalt álitamál er rótin að þessu athyglisverða dómsmáli, það er hvort nektardans sé list eða ekki. Þegar eigendur nektarstaðarins Diamond Go Go Bar í Ósló voru dregnir fyrir dóm á síðasta ári vegna vanskila á virðisaukaskatti báru þeir því við að dansmeyjar þeirra væru listamenn og því væri iðja þeirra, líkt og aðrar listgreinar, undanþegin virðisaukaskatti. Í undirrétti var staðurinn sýknaður af skattsvikum og nú hefur áfrýjunardómstóll komist að sömu niðurstöðu. Saksóknarinn í málinu átti bágt með að leyna gremju sinni í viðtölum við blaðamenn í dag. Nektardansmeyjarnar voru hins vegar himinlifandi enda telja þær ekkert vafamál að líkamstjáning þeirra sé list. Norska ríkið var svo auk þess dæmt til að greiða allan málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×