Kostir langra lífdaga 14. desember 2006 06:00 Sumum mönnum þykir mér rétt að óska sem allra lengstra lífdaga, svo að þeir megi fá að hlýða sjálfir á dóm sögunnar um verk þeirra. Þessi ósk hvílir á sannmæliskenningunni, býst ég við - þeirri kenningu, að sannleikurinn sé grundvöllur réttlætisins og mönnum sé gert rangt til, fái þeir ekki að njóta sannmælis. Stundum er saga einstaklinganna ekki ein í húfi, heldur saga heillar þjóðar. Tveir slíkir menn eru nýfallnir frá, annar í Bandaríkjunum, hinn í Síle, báðir á tíræðisaldri. Þeir hafa stundum verið spyrtir saman, en það er ranglátt gagnvart öðrum þeirra, sem var ótvíræður afreksmaður, því að hinn var forhertur afbrotamaður. Byrjum á síðarnefnda. Hann hét Augusto Pinochet og var hershöfðingi í Síle. Herinn þar eins og annars staðar í Suður-Ameríku hefur löngum verið hafður mest til innanlandsnota, og þannig gerðist það, að rétt kjörinn forseti Síle, Salvador Allende, fól Pinochet hershöfðingja að koma á röð og reglu í landinu í kjölfar uppþota 1973. Pinochet fórst verkið svo vel úr hendi, að hann var skipaður yfirmaður heraflans, og þá neytti hann lags til að ræna völdum í landinu skömmu síðar, og hann stjórnaði því síðan með harðri hendi í sautján ár. Þegar hann hvarf frá völdum 1990, bjó hann svo um hnútana, að hann og menn hans voru ósnertanlegir að kalla, þótt vitað væri, að þeir báru ábyrgð á hvarfi rösklega þriggja þúsunda manna, sumir segja fjögurra þúsunda, auk skipulegra pyndinga í stórum stíl. Eigi að síður tók hagstjórnin í Síle miklum framförum í stjórnartíð Pinochets: verðbólgan var kýld niður úr 400 prósentum 1973 í 20 prósent 1990, landsframleiðslan óx hraðar en áður í skjóli aukins viðskiptafrelsis og ýmissa annarra umbóta, og grunnur var lagður að frekari frívæðingu og framförum, svo að þjóðartekjur á mann í Síle eru nú þrisvar sinnum meiri en þær voru 1965. Atvinnuleysi er óverulegt. Landið er frjálst. Síleska þjóðin var þríklofin í afstöðu sinni til þessara atburða. Þriðjungur landsmanna eða þar um bil kaus að horfa fram hjá mannréttindabrotunum og mærði Pinochet fyrir góðan árangur í efnahagsmálum, og þá var það gjarnan látið fylgja með, að hann væri strangheiðarlegur, hvað sem annars mætti um hann segja. Annar þriðjungur þjóðarinnar leit á Pinochet sem harðsvíraðan glæpamann. Enn aðrir tóku ekki afstöðu. Leigubílstjóri í höfuðborginni Santíagó benti mér fyrir nokkrum árum á auðan stall á Stjórnarskrártorginu framan við forsetahöllina í Síle, sem Pinochet fyrirskipaði loftárasir á 1973, og sagði: Ætli gamla manninum verði ekki komið fyrir þarna? Þar eru nú þrjár styttur, ein þeirra af Salvador Allende. Og þarna hefði líkneski Pinochets hæglega getað risið, hefði hann andazt um áttrætt. En hann entist lengur. Síðustu átta árin var hann í stofufangelsi, fyrst í Bretlandi fyrir tilstilli spænsks dómara, sem ákærði Pinochet fyrir mannréttindabrot gegn nokkrum Spánverjum í Síle, og síðan heima í Síle, þar sem óttinn við Pinochet fjaraði út, þegar menn sáu, að dómskerfi Bretlands hafði náð til hans. Rannsókn leiddi í ljós, að Pinochet hafði safnað stórfé inn á erlenda bankareikninga og hlaut því að vera marfaldur mútuþegi. Auk þess varð hann uppvís að því að hafa tekið þjóðargersemar úr opinberum söfnum og flutt þær heim til sín. Hann lifði nógu lengi til að fá að vita, að síleska þjóðin og heimsbyggðin öll fékk að endingu að heyra sannleikann um hann, þótt honum entist ekki aldur til að fá lokadóm. Ég hitti Milton Friedman einu sinni. Hann var þá um sextugt og kom frá Chicago til Princeton, þar sem ég var við nám, að halda fyrirlestur og kynna nýtt ritgerðasafn og seldi mér áritað eintak. Það var ókyrrð í salnum, mörgum áheyrendum þótti boðskapur fyrirlesarans framandlegur. Hundur blinds gistiprófessors gelti í miðri ræðu, við höfðum ekki heyrt hann gera það áður. Andrúmsloftið var lævi blandið. Samt hafði Friedman á réttu að standa um flest á fundinum. Nokkrum árum síðar var hann sæmdur Nóbelsverðlaunum í hagfræði og var þá vændur um samneyti við Pinochet, en það var ósanngjörn ásökun, þeir höfðu hitzt í eitt skipti. Arkitektar efnahagsumbótanna í Síle höfðu sumir lesið hagfræði í Chicago, en það gerði Friedman ekki samsekan Pinochet, fjarri því. Einn helzti styrkur Friedmans sem fræðimanns var hæfileikinn til að miðla fræðum sínum til almennings: hann var blaðamaður af guðs náð og hafði smám saman mikil áhrif á skoðanir almennings. Hann lagði grunninn að gengisfloti dollarans gagnvart öðrum gjaldmiðlum og að afnámi herskyldu í Bandaríkjunum. Hann barðist til dauðadags fyrir auknu valfrelsi í skólamálum, knúinn áfram af umhyggju fyrir menntunarmöguleikum fátæks fólks. Hann lagðist óhræddur gegn hvers kyns sérhagsmunum. Hann reyndi ekki að koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum, hann þurfti ekki á því að halda. Síðustu árin stóð hann með pálmann í höndunum og naut nær óskiptrar virðingar meðal hagfræðinga. Hann lifði nógu lengi til að fá að vita, að hann fékk að endingu að njóta sannmælis. Ég hitti Milton Friedman einu sinni. Hann var þá um sextugt og kom frá Chicago til Prince-ton, þar sem ég var við nám, að halda fyrirlestur og kynna nýtt ritgerðasafn og seldi mér áritað eintak. Það var ókyrrð í salnum, mörgum áheyrendum þótti boðskapur fyrirlesarans framandlegur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Sumum mönnum þykir mér rétt að óska sem allra lengstra lífdaga, svo að þeir megi fá að hlýða sjálfir á dóm sögunnar um verk þeirra. Þessi ósk hvílir á sannmæliskenningunni, býst ég við - þeirri kenningu, að sannleikurinn sé grundvöllur réttlætisins og mönnum sé gert rangt til, fái þeir ekki að njóta sannmælis. Stundum er saga einstaklinganna ekki ein í húfi, heldur saga heillar þjóðar. Tveir slíkir menn eru nýfallnir frá, annar í Bandaríkjunum, hinn í Síle, báðir á tíræðisaldri. Þeir hafa stundum verið spyrtir saman, en það er ranglátt gagnvart öðrum þeirra, sem var ótvíræður afreksmaður, því að hinn var forhertur afbrotamaður. Byrjum á síðarnefnda. Hann hét Augusto Pinochet og var hershöfðingi í Síle. Herinn þar eins og annars staðar í Suður-Ameríku hefur löngum verið hafður mest til innanlandsnota, og þannig gerðist það, að rétt kjörinn forseti Síle, Salvador Allende, fól Pinochet hershöfðingja að koma á röð og reglu í landinu í kjölfar uppþota 1973. Pinochet fórst verkið svo vel úr hendi, að hann var skipaður yfirmaður heraflans, og þá neytti hann lags til að ræna völdum í landinu skömmu síðar, og hann stjórnaði því síðan með harðri hendi í sautján ár. Þegar hann hvarf frá völdum 1990, bjó hann svo um hnútana, að hann og menn hans voru ósnertanlegir að kalla, þótt vitað væri, að þeir báru ábyrgð á hvarfi rösklega þriggja þúsunda manna, sumir segja fjögurra þúsunda, auk skipulegra pyndinga í stórum stíl. Eigi að síður tók hagstjórnin í Síle miklum framförum í stjórnartíð Pinochets: verðbólgan var kýld niður úr 400 prósentum 1973 í 20 prósent 1990, landsframleiðslan óx hraðar en áður í skjóli aukins viðskiptafrelsis og ýmissa annarra umbóta, og grunnur var lagður að frekari frívæðingu og framförum, svo að þjóðartekjur á mann í Síle eru nú þrisvar sinnum meiri en þær voru 1965. Atvinnuleysi er óverulegt. Landið er frjálst. Síleska þjóðin var þríklofin í afstöðu sinni til þessara atburða. Þriðjungur landsmanna eða þar um bil kaus að horfa fram hjá mannréttindabrotunum og mærði Pinochet fyrir góðan árangur í efnahagsmálum, og þá var það gjarnan látið fylgja með, að hann væri strangheiðarlegur, hvað sem annars mætti um hann segja. Annar þriðjungur þjóðarinnar leit á Pinochet sem harðsvíraðan glæpamann. Enn aðrir tóku ekki afstöðu. Leigubílstjóri í höfuðborginni Santíagó benti mér fyrir nokkrum árum á auðan stall á Stjórnarskrártorginu framan við forsetahöllina í Síle, sem Pinochet fyrirskipaði loftárasir á 1973, og sagði: Ætli gamla manninum verði ekki komið fyrir þarna? Þar eru nú þrjár styttur, ein þeirra af Salvador Allende. Og þarna hefði líkneski Pinochets hæglega getað risið, hefði hann andazt um áttrætt. En hann entist lengur. Síðustu átta árin var hann í stofufangelsi, fyrst í Bretlandi fyrir tilstilli spænsks dómara, sem ákærði Pinochet fyrir mannréttindabrot gegn nokkrum Spánverjum í Síle, og síðan heima í Síle, þar sem óttinn við Pinochet fjaraði út, þegar menn sáu, að dómskerfi Bretlands hafði náð til hans. Rannsókn leiddi í ljós, að Pinochet hafði safnað stórfé inn á erlenda bankareikninga og hlaut því að vera marfaldur mútuþegi. Auk þess varð hann uppvís að því að hafa tekið þjóðargersemar úr opinberum söfnum og flutt þær heim til sín. Hann lifði nógu lengi til að fá að vita, að síleska þjóðin og heimsbyggðin öll fékk að endingu að heyra sannleikann um hann, þótt honum entist ekki aldur til að fá lokadóm. Ég hitti Milton Friedman einu sinni. Hann var þá um sextugt og kom frá Chicago til Princeton, þar sem ég var við nám, að halda fyrirlestur og kynna nýtt ritgerðasafn og seldi mér áritað eintak. Það var ókyrrð í salnum, mörgum áheyrendum þótti boðskapur fyrirlesarans framandlegur. Hundur blinds gistiprófessors gelti í miðri ræðu, við höfðum ekki heyrt hann gera það áður. Andrúmsloftið var lævi blandið. Samt hafði Friedman á réttu að standa um flest á fundinum. Nokkrum árum síðar var hann sæmdur Nóbelsverðlaunum í hagfræði og var þá vændur um samneyti við Pinochet, en það var ósanngjörn ásökun, þeir höfðu hitzt í eitt skipti. Arkitektar efnahagsumbótanna í Síle höfðu sumir lesið hagfræði í Chicago, en það gerði Friedman ekki samsekan Pinochet, fjarri því. Einn helzti styrkur Friedmans sem fræðimanns var hæfileikinn til að miðla fræðum sínum til almennings: hann var blaðamaður af guðs náð og hafði smám saman mikil áhrif á skoðanir almennings. Hann lagði grunninn að gengisfloti dollarans gagnvart öðrum gjaldmiðlum og að afnámi herskyldu í Bandaríkjunum. Hann barðist til dauðadags fyrir auknu valfrelsi í skólamálum, knúinn áfram af umhyggju fyrir menntunarmöguleikum fátæks fólks. Hann lagðist óhræddur gegn hvers kyns sérhagsmunum. Hann reyndi ekki að koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum, hann þurfti ekki á því að halda. Síðustu árin stóð hann með pálmann í höndunum og naut nær óskiptrar virðingar meðal hagfræðinga. Hann lifði nógu lengi til að fá að vita, að hann fékk að endingu að njóta sannmælis. Ég hitti Milton Friedman einu sinni. Hann var þá um sextugt og kom frá Chicago til Prince-ton, þar sem ég var við nám, að halda fyrirlestur og kynna nýtt ritgerðasafn og seldi mér áritað eintak. Það var ókyrrð í salnum, mörgum áheyrendum þótti boðskapur fyrirlesarans framandlegur.