Innlent

Fjölga þarf sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum verulega

MYND/Hari

Fjölga þarf sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum verulega á næstu árum til að mæta vaxandi þörf fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og kynnt var í dag.

Í skýrslunni er fjallað um mannaflaspá í heilbrigðisþjónustu og þar eru bæði birtar lágmarksspár og hámarkspár um þörf á vinnuafli. Samkvæmt spá Sjúkraliðafélags Íslands þarf af fjölga sjúkraliðum 16 prósent til þess að þörf um vinnuafl yrði fullnægt og þá þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum um 14 prósent til þess að ná sömu markmiðum að mati Félas íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Bent er á í skýrslunni að undanfarin tíu ár hafiinnan við 90 sjúkraliðaleyfi verið gefin út af heilbrigðisyfirvöldum en Hagfræðistofnun telur að nauðsynlegt sé að útskrifa 120 til 140 sjúkraliða á ári til að mæta eftirspurn eftir sjúkraliðum. Sama er að segja um hjúkrunarfræðinga. Um 110 hjúkrunarfræðingar útskrifast á ári hverju en Hagfræðistofnun telur raunhæft að gera ráð fyrir að útskrifa þurfi 130 til 140 hjúkrunarfræðinga árlega.

Staðan er hins vegar ekki jafnalvarleg varðandi lækna og segir í skýrslunni að 48 læknar séu útskrifaðir á ári sem sé nokkuð viðunandi. Bent er á að ríflega 1000 læknar starfi hér á landi og tæplega 500 erlendis og því væri hægt að fjölga læknum hér um tæplega 50 prósent ef allir sneru aftur heim.

Þá segir Hagfræðistofnun enn fremur að að ætla megi að nægjanlegur fjöldi sjúkraþjálfara útskrifist á ári hverju, eða um 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×