Erlent

Pútín vill ekki íraskt lýðræði

Bandarísku forsetahjónin heilsa þeim rússnesku í gær
Bandarísku forsetahjónin heilsa þeim rússnesku í gær MYND/AP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti kærir sig ekki um lýðræði eins og það sem Írakar hafi. Þetta sagði forsetinn á sameiginlegum blaðamannafundi með George Bush Bandaríkjaforseta í morgun en Bush hafði lýst því yfir fyrir ferð sína til Rússlands að hann myndi ræða áhyggjur manna af þróun lýðræðisins í Rússlandi við Pútín.

"Ég skal vera alveg hreinskilinn," sagði Pútín er hann var spurður um málið á blaðamannafundinum. "Við myndum að sjálfsögðu ekki vilja lýðræði eins og það sem er í Írak." Bush hafði þá nýlokið við að lýsa vilja sínum til að stuðla að lýðræðisþróun um allan heim og nefndi sem dæmi frelsi fjölmiðla og trúarhópa í Írak.

Þó svo forsetarnir tveir hafi ekki verið sammála í einu og öllu sagðist Putin þó Rússa styðja tillögur Bandaríkjamanna um samstarf á sviði kjarnorku milli ríkjanna tveggja. Löndin tvö hafi náð samkomulagi um næstu skref í baráttunni við hryðjuverk þar sem kjarnorka kemur við sögu. Blaðamannafundurinn var haldinn í morgun, en fundur leiðtoga G-8 ríkjanna hefst í Pétursborg síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×