Innlent

Segist ekki hafa farið fjóra milljarða fram úr áætlunum

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur kostuðu fimm komma átta milljarða, samkvæmt upplýsingum stjórnarinnar nú. Áætlanir gerðu ráð fyrir að kostnaðurinn yrði átjánhundruð milljónir eða það sama og fékkst við sölu fyrirtækjanna sem fóru undir hatt Orkuveitunnar. Fyrrverandi stjórnarformaður vísar því á bug að hann hafi farið fjóra milljarða fram úr áætlunum.

Alfreð Þorsteinsson segir að aðalbyggingin hafi kostað þrjá komma tvo milljarða en áætlun hafi gert ráð fyrir tveimur komma sjö. Framúrkeyrslan sé því hálfur milljarður.

Alfreð Þorsteinsson segir að söluandvirði húsanna hafi átt að dekka heildarkostnaðinn að einhverju leyti en aldrei allan. Það verði að horfa til þess að Orkuveitan velti sautján til átján milljörðum á ári.

Alfreð segir innlegg stjórnarformannsins afar óheppilegt fyrir samstarf meirihlutans í borginni. Hann kjósi að líta á það sem slys.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði við NFS í dag upplýsingar um kostnað við Orkuveituhúsið vera réttar. Þetta sé sannleikur málsins og menn verði bara að læra af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×