Stjórnvöld í Írak hafa sett á algjört útgöngubann í höfuðborginni Bagdad í dag. Í yfirlýsingu sem Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, gaf út segir að útgöngubannið gildi til klukkan 18. Fólki er gert að halda sig innan dyra og öll umferð á götum borgarinnar er bönnuð.
Forsætisráðherrann gaf engar skýringar á útgöngubanninu en bæði bandarískar og íraskar hersveitir hafa lagt aukna áherslu á öryggi í borginni á síðustu viku. Ofbeldi hefur aukist mikið í Bagdad á síðustu vikum en Ramadan, helgimánuður múslima, hófst í gær.