Innlent

Lengja á kennaranámið í fimm ár

Lengja á kennaranámið í fimm ár og auka veg og virðingu kennarastarfsins með því að setja á laggirnar svokallað kennsluráð. Þetta er meðal þess kemur fram í skýrslu starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar sem menntamálaráðherra kynnti ríkisstjórninni í gær.

Í skýrslunni er drepið á mörgum ólíkum þáttum kennaranámsins og tillögur til úrbóta viðraðar. Hæst ber þó tillagan um lengingu kennaranámsins en Umræðan um lengingu námsins hefur verið í gangi um árabil.

Í skýrslunni er bent á að á Norðurlöndunum sé kennaranámið viðameira en hér á landi og ef efla á fagþekkingu og hæfni kennara í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til kennara sé nauðsynlegt að lengja námið úr þremur árum í fimm. Þá leggur starfshópurinn til að sett verði a laggirnar svokallað kennsluráð sem hafi með höndum stjórnun og stefnumótun um öll helstu mál er snúa að grunn- framhalds- og endurmenntun kennara. Eins vill starfshópurinn að horft verði í auknum mæli fram hjá skilum milli skólastiga við veitingu kennsluréttinda en nú hafa til að mynda grunnskólakennarar ekki réttindi til að kenna í framhaldsskólum.

Tillögurnar eru í samræmi við þær hugmydnir sem rektor Kennaraháskólans hefur barist fyrir lengi en skólinn hefur þegar hafið undirbúning á lengingu námsins. Hvað við kemur menntun leikskólakennara leggur hópurinn til að starfsheiti og starfsréttindi þeirra verði varin með lögum á sama hátt og annarra kennara en svo hefur ekki verið hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×