Körfubolti

Öruggt hjá Bandaríkjamönnum

Dwyane Wade skoraði 26 stig fyrir BNA  í dag
Dwyane Wade skoraði 26 stig fyrir BNA í dag NordicPhotos/GettyImages

Bandaríkjamenn unnu auðveldan sigur á Kínverjum 121-90 í öðrum leik sínum á HM í körfubolta sem fram fer í Japan um þessar mundir. Dwyane Wade skoraði 26 stig fyrir bandaríska liðið og þeir Carmelo Anthony og Dwight Howard skoruðu 16 hvor. Yao Ming skoraði 21 stig fyrir Kínverja, sem hafa tapað báðum leikjum sínum illa á mótinu.

Portó Ríkó sigraði Senegal 88-79 í D-riðli mótsins, þar sem Carlos Arroyo var allt í öllu hjá Portó Ríkó og skoraði 29 stig. Liðið hefur þar með unnið einn leik og tapað einum - fyrir Bandaríkjamönnum í gær.

Í sama riðli lögðu Ítalar Slóvena 80-69 þar sem Marco Belinelli skoraði 26 stig fyrir ítalska liðið og Rasho Nesterovic setti 17 fyrir Slóvena.

Argentína burstaði Líbanon 107-72 í A-riðli, þar sem Walter Herrmann skoraði 23 stig og Luis Scola var með 18 stig fyrir Argentínu.

Boris Diaw skoraði 20 stig fyrir Frakka sem lögðu Serba og Svartfellinga 65-61 í sama riðli, en Serbar hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa.

Í B-riðli burstuðu Þjóðverjar Nýsjálendinga 80-56, þrátt fyrir að Dirk Nowitzki væri langt frá sínu besta. Demond Greene var stigahæstur þeirra með 18 stig og hefur þýska liðið unnið báða leiki sína til þessa.

Í sama riðli völtuðu Spánverjar yfir Panama 101-57 á bak við 26 stig og 10 fráköst frá framherjanum Pau Gasol sem leikur með Memphis Grizzlies í NBA deildinni.

Í C-riðlinum er svo allt opið upp á gátt, en þar sigruðu Brasilíumenn Katar 97-66 og Tyrkir lögðu Ástrali 76-68.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×