Innlent

Taka þarf höndum saman til að uppræta agaleysi í þjóðfélaginu

Óvirðing í garð lögregluyfirvalda eykst stöðugt. Foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi barna þurfa að taka höndum saman til að uppræta agaleysi í þjóðfélaginu segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.

Í gær þurfti lögreglan í Reykjavík að hafa afskipti af tveimur stúlkum, 12 og 13 ára sem létu ófriðlega í fjölbýlishúsi í borginni. Þegar lögregla kom á staðinn o ghugðist keyra stúlkurnar heim þá brugðust þær ókvæða við. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn segir að þegar stúlkurnar voru komnar í bíl lögreglumannanna hafi þær haft upp þvílíkan munnsöfnuð að lögreglan vildi ekki hafa hann eftir. Því var ákveðið að fara með stúlkurnar niður á lögreglustöð þar sem haft var samband við forráðamenn stúlknanna sem komu og sóttu þær.

Barnaverndaryfirvöldum hefur verið greint frá málinu og má búast við eftirmála vegna málsins af þeirra hendi. Geir Jón segir agaleysi í þjóðfélaginu vera að aukast og að lögreglan verði sífellt meira vör við óvirðingu í sinn garð. Skemmst er að minnast óeirða í Skeifunni um liðna heilgi. Þar hafði hópur ungmenna safnast saman og hafði í frammi skrílslæti við lögreglu og neituðu að fara að fyrirmælum hennar. Geir Jón segir það vera að aukast að fólk fari ekki að fyrirmælum lögreglu og að óvirðing í þeirra garð sé sífellt að aukast. Hann segir foreldra, kennara og aðra sem koma að uppeldi barna þurfa að taka höndum saman og taka á vandanum

-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×