Tvívegis var ekið á hæðarslár við gatnamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar í fyrradag. Ekki urðu slys á fólki, en lögregla segir að með sama framhaldi sé aðeins tímaspursmál hvenær illa fari.
„Við vitum um dæmi þar sem ökumenn hafa virt hæðartakmörk að vettugi, ekið á hæðarslá og svo undir yfirslátt með þeim afleiðingum að brak hefur hrunið til jarðar og valdið slysi á fólki,“ segir lögreglumaður hjá lögreglunni í Reykjavík. Lögregla vill ítreka hæðartakmörk, sem eru 4,2 metrar.