„Sú þjóðareining sem hér ríkir um þennan dag er mjög óvenjulegt og fallegt fyrirbæri. Íslendingar mæta til göngu, sama í hvaða stétt þeir eru eða hver kynhneigð þeirra er,“ segir Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, sem hefjast formlega í dag og standa yfir til sunnudags.
Upphitun fyrir hátíðina fór fram í gærkvöldi með Draggkeppni Íslands 2006 sem fram fór í Þjóðleikhúskjallaranum. Hátíðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum og fest sig í sessi sem einn af stærstu viðburðum landsins. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í janúar og gengið vel að sögn Þorvaldar, en yfir 200 manns hafa eitthvert hlutverk í hátíðinni.
Boðið verður upp á ýmsa viðburði þá fjóra daga sem Hinsegin dagar standa yfir en hápunktur og stolt hátíðarinnar er Gleðigangan sem fer ávallt fram annan laugardag í ágúst. Fyrsta árið sem gangan var farin mættu um fimmtán þúsund manns og í fyrra mættu um fimmtíu þúsund manns í gönguna.
Gleðigangan hefst klukkan tvö við Hlemm og er gengið niður eftir Laugavegi og endað í Lækjargötu. Hinsegin hátíð hefst svo í Lækjargötu að göngu lokinni þar sem fjölmargir skemmtikraftar munu stíga á svið.
Þorvaldur segir Hinsegin daga á Íslandi ólíka skyldum hátíðarhöldum erlendis. Þátttakan sé mjög almenn og stuðningur við réttindabaráttu samkynhneigðra mikill.