Srí Lanka, ap Sprengja varð fimm manns að bana á yfirráðasvæði Tamílatígra í norðurhluta Srí Lanka seint á þriðjudagskvöld. Fólkið var í sjúkrabíl og meðal þeirra sem létust voru tvær hjúkrunarkonur og einn læknir.
Þetta var haft eftir S. Puleedevan, einum yfirmanni uppreisnarmannanna, í gær. Hann skellti sökinni alfarið á sérsveitir stjórnarhersins og bætti við að svo virtist sem árásum stjórnarhersins væri í auknum mæli beint gegn hjálparstarfsmönnum, því að í gær hefði önnur sprengja sprungið á svipuðum stað og þá hefði skotmarkið verið sendibíll læknis. Hann og aðrir farþegar sluppu ómeiddir.
Talsmaður stjórnarhersins, Upali Rajapakse, neitaði ásökununum og sagði að herinn sækti ekki inn á svæði Tamíla.
Um helgina fundust sautján lík starfsmanna franskra hjálparsamtaka og kenna stríðandi fylkingar hvor annarri um ódæðið.
Ekki náðist í Þorfinn Ómarsson í gær, en hann er talsmaður norrænu eftirlitssveitanna á Srí Lanka. Á næstu dögum verður tekin ákvörðun um hvort Norðmenn og Íslendingar haldi áfram eftirlitsstarfi á eyjunni.
Stjórnarherinn varpaði í gær sprengjum á vatnsveitusvæðið umdeilda, þrátt fyrir að Tamílatígrar hefðu opnað fyrir hana og veitt vatni á svæði stjórnarhersins.