Innlent

Eftirliti með olíu ábótavant

Jón Magnús Pálsson, formaður Landssambands vörubifreiðastjóra
Jón Magnús Pálsson, formaður Landssambands vörubifreiðastjóra

Eftirlit Vegagerðarinnar með notkun litaðrar dísilolíu er ekki nægilegt og of auðvelt er að komast upp með að svindla á reglunum, að mati Jóns Magnúsar Pálssonar, formanns Landssambands vörubifreiðastjóra.

„Ég þori nánast að fullyrða það að menn eru að misnota þetta kerfi í einhverjum tilfellum,“ segir Jón. Hann bendir á að eflaust sé auðvelt að láta freistast þegar litaða olían kostar 41 krónu minna á lítrann en sú ólitaða og eftirlit er jafn lítið og raun ber vitni.

„Þetta eru bílar sem eyða 50 til 70 lítrum á hundraðið og eru jafnvel keyrðir 500 kílómetra á dag. Ef þessir aðilar eru að svindla og spara þriðjung af sínum olíukaupum sitja þeir ekki við sama borð og aðrir. Þeir eru til dæmis með allt aðrar forsendur fyrir útboðum.“

Jón segist hafa verið mótfallinn þeirri breytingu að fella úr gildi þungaskattskerfið þegar olíuverð var orðið eins hátt og það nú er, þótt deila hefði mátt um upphæð kílómetragjaldsins. „Það kerfi þrælvirkaði og undanskot voru algjör undantekning.“

Jón segir blasa við að Vegagerðin þurfi að herða eftirlitið. „Þeir ráða ekkert við þetta. Fjórir bílar sjá um eftirlit með þyngd, öxulþunga, olíu og rekstrarleyfum. Það er einfaldlega ekki nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×