Innlent

Laun í álveri yfir meðallagi

Erna Indriðadóttir Upplýsinga­fulltrúi Alcoa og athafnasvæði Alcoa á Reyðarfirði.
Erna Indriðadóttir Upplýsinga­fulltrúi Alcoa og athafnasvæði Alcoa á Reyðarfirði.

Tveir grunnskólakennarar starfa nú hjá Alcoa Fjarðaáli, samkvæmt upplýsingum Ernu Indriðadóttur, upplýsingafulltrúa Alcoa í Fjarðabyggð. Erna segir það mikla einföldun að kenna álverinu um kennaraskort á Egilsstöðum eins og Róbert Gunnarsson, skólastjóri Egilsstaðaskóla, gerði í viðtali við Fréttablaðið í gær.

Erna segir ekki verið að leita að kennurum sérstaklega en að þeirra umsóknir séu vel­komnar eins og aðrar. „Launin sem eru í boði eru yfir meðallagi miðað við laun í almennum iðnaði og það laðar fólk að.“

Erna segir þriðjung þeirra sem sæki um störf hjá Fjarðaáli koma úr fjórðungnum, en hluti þess hóps er að leita að stöðugri atvinnu í stað atvinnu sem háð er árstíðum eins og fiskveiðar og ferðaþjónusta. „Aðrir Austfirðingar hafa flutt heim aftur þegar þeir sjá fram á að geta nýtt menntun sína sem þeir gátu ekki áður.“

Erna segir að í álverinu verði fjögur hundruð störf og að auki skapist fjögur hundruð störf á svæðinu, til dæmis við þjónustu. Hagfræðistofnun HÍ telur að níu hundruð störf skapist á landinu öllu vegna álversframkvæmdanna.

Erna segir reynsluna sýna að starfsmannavelta sé lítil í álverum á Íslandi og þeir sem þar starfi vilji halda því áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×