Innlent

Ölvaður rútubílstjóri stofnaði farþegum í hættu

Ölvaður ökumaður langferðabíls stofnaði lífi og limum 16 farþega og annarra vegfarenda í bráða hættu með háskaakstri um helgina. Lögreglan á Selfossi bíður nú endanlegrar niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni, sem tekið var úr hópferðabílstjóranum. Bílstjórinn, frá Kynnisferðum, missti stjórn á bíl sínum á leið niður Kambana á sunnudagsmorgun, með sextán erlenda farþega um borð, þeirra á meðal börn. Blásturssýni sem tekið var af ökumanninum á staðnum gefur til kynna að hann hafi verið ölvaður auk þess sem vitni segja að hann hafi sýnilega borið þess merki.

Maðurinn missti stjórn á bílnum, ofarlega í Kömbunum, sem fór við það yfir á öfugan vegarhelming og barst langa leið niður brekkuna utan í vegriðinu uns hann nam staðar og hafði þá annað framhjólið affelgast og töluverðar skemmdir orðið á hlið bílsins. Það hefur því legið við stór slysi og fengu skelfingu lostnir farþegarnir far með öðrum hópferðabíl af vettvangi. Ákæruvaldið tekur afstöðu í málinu þegar áfengismagn í blóði bílstjórans liggur fyrir.

Rannsóknanefnd umferðarslysa barst ekki vitneskja um atvikið fyrr en í fjölmiðlum í morgun, enda er hún ekki kölluð til þegar enginn hefur slasast. Engu að síður sagðist Ágúst Mogensen, framkvæmdastjóri nefndarinnar, ætla að kalla eftir öllum skýrslum um málið og rannsaka það eftir föngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×