Innlent

Ekki frekari fjárfestingar í stóriðju

Íslensk stjórnvöld verða með skjótvirkum hætti að koma á efnahagslegu jafnvægi og ekki fara út í frekari fjárfestingu í stóriðju að mati sérfræðinga OECD. Þeir sjá einnig ástæðu til að minna íslenska ráðamenn á að mannauður er grundvöllur þess að efnahagslegur árangur síðasta áratugar viðhaldist.

Um er að ræða reglubundna skýrslu um stöðu og horfur í efnahagsmálum sem samin var eftir tvær heimsóknir sérfræðinga stofnunarinnar hingað til lands í ár. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni á vef fjármálaráðuneytisins. Í skýrslunni segir að tekjur á einstaklinga hafi aukist hratt síðasta áratuginn. Undanfarið hafi hins vegar hagvöxtur verið sveiflukenndur sökum stórra fjárfestinga í orku- og áliðnaði og skuldsetningu heimilanna. Á næstunni þurfi efnahagsstjórn landsins að herða tökin til að koma verðbólgu aftur inn fyrir opinber markmið. Fjárlögum þurfi að framfylgja. Að mati skýrsluhöfunda ætti ekki að ráðast í frekari stórframkvæmdir fyrr en komið sé á efnahagsjafnvægi og ljóst sé hver raunverulegur ávinningur sé af þeim fyrir þjóðarbúskapinn, ekki síst með tillliti til umhverfisáhrifa.

Skýrslan kemur með tillögur um hvernig megi laga menntakerfið að efnahagsumhverfi í örri þróun. Tillögurnar fela meðal annars í sér skólagjöld í háskólum og að hvetja fólk til að fara erlendis í nám í stað þess að bjóða allar námsleiðir. Skýrsluhöfundar telja Íbúðalánasjóð hamla húsnæðismarkaði. Stjórnvöld eigi að íhuga að leggja gjald á sjóðinn eða skipta honum upp til að greiða fyrir samkeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×