Innlent

Fékk tinnu að láni

 Nýsir hf. sem sér um sýningarskála Íslands á Feneyja-tvíæringnum sótti um og fékk leyfi til að fjarlægja næstum tveggja metra háan hrafntinnustein og flytja til Feneyja vegna hennar. Umræddur steinn, sem var áður á Dómadalsleið milli Landmannahellis og Frostastaðavatns, er þekktur fyrir glæsileika að sögn Árna Bragasonar, forstöðumanns náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.

Það er Ólafur Elíasson listamaður sem ber hitann og þungann af sýningunni og átti steinninn að vera miðpunktur hennar. Íslendingar sýna að þessu sinni fullkomið módel af fyrirhuguðu tónlistar- og ráðstefnuhúsi við Reykjavíkurhöfn ásamt nánasta umhverfi þess.

Umhverfisstofnun heimilaði brottflutning steinsins en þó með ákveðnum skilyrðum. Meðal annars var þess krafist að brottnámið ylli sem minnstum óafturkræfum áhrifum og að steininum yrði skilað á sinn stað að sýningu lokinni.

Sýningin hefur staðið yfir frá 10. september og mun ljúka á sunnudag. Árni segir að hann geri ráð fyrir því að steininum verði skilað að henni lokinni, enda hafi hann verið lánaður með því skilyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×