Viðskipti erlent

GM dregur úr framleiðslu sportjeppa

Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hefur ákveðið að draga úr framleiðslu á stærri gerðum sportjeppa af gerðinni Chevrolet og GMC. Ákvörðunin var tekin vegna mun minni sölu á bílum af þessari gerð en áætlanir stóðu til, aukinnar samkeppni frá Japan og hærri eldsneytisverð.

Stjórnendur bílaframleiðandans segja eftirspurn eftir sportjeppunum stöðuga en komið verði í veg fyrir að birgðir af bílunum aukist mikið með því að draga úr framleiðslu á þeim.

Ekki liggur fyrir hvort til uppsagna komi vegna þessa hjá General Motors.

Sportjeppar GM hafa sætt harðri gagnrýni frá hendi umhverfisverndarsinna allt frá því þeir komu fyrst á markað en þeir þykja miklir bensínssvelgir.

Í kjölfar mikilla hækkana á eldsneytisverði á seinni hluta ársins dróst sala á sportjeppum frá GM nokkuð saman. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur salan dregist saman um 5,5 prósent. Salan hríðféll hins vegar í nóvember þegar salan dróst saman um rúm 15 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×