Erlent

Líf á Mars?

Vísindamenn hafa fundið merki um rennandi vatn á Mars. Uppgötvunin eykur verulega líkur á að líf sé að finna á rauðu plánetunni enda er vatn ein af höfuðforsendum þess.

Á Mars er að jafnaði 58 gráðu frost og súrefnisinnhald gufuhvolfsins þar er einungis 0,1%. Þrátt fyrir þessi óhagsstæðu skilyrði hafa kenningar lengi verið á kreiki um að líf fyrirfinnist á þessum nágranna okkar jarðarbúa og þær kenningar hafa fengið byr undir báða vængi á undanförnum árum. Til dæmis hafa verið leiddar að því líkur að í loftsteinum frá Mars sem fundist hafa í jöklum Suðurskautsins séu ummerki um að líf hafi verið á rauðu plánetunni fyrir nokkrum milljörðum ára. Vísindamenn Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA voru því hróðugir í gær þegar þeir birtu ljósmyndir sem geimfarið Global Surveyor tók fyrir nokkrum árum. Á þeim má sjá breytingar á yfirborði plánetunnar sem líklegast eru af völdum rennandi vatns.

Þessar uppgötvanir sanna auðvitað ekki að líf þrífist á Mars en rennandi vatn er engu að síður ein af mikilvægustu forsendum þess. Ef líf er að finna á Mars telja geimlíffræðingar líklegast að það sé undir yfirborði plánetunnar og vart þarf að taka fram að aðeins væri um afar frumstæðar örverur að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×